Hvíta húsið er stoltur samstarfsaðili Heimsþings kvenleiðtoga, eða Reykjavík Global Forum – Women Leaders. Heimsþingið er vettvangur leiðtoga í öllum greinum til þess að deila þekkingu og auka samráð og samstarf og er runnið undan rifjum íslenskra athafnakvenna sem sáu bæði tækifæri og nauðsyn þess að skapa slíkan vettvang.
Viðburður ársins verður á vefnum þann 9-11 nóvember en að auki verða fámennir fundir haldnir í sendiráðum og ræðismannaskrifstofum Íslands um allan heim. Áherslan að þessu sinni er að móta aðgerðir sem snúa að sjálfbærni og geta stuðlað að framþróun og úrbótum um allan heim.
Heimsfaraldurinn hefur glögglega leitt í ljós að þörf er á leiðtogahæfileikum kvenna sem og samvinnu þeirra í ákvarðanatöku. Konur verða fyrir meiri neikvæðum áhrifum af faraldrinum en karlar, en kvenleiðtogar heimsins vinna nú þegar ötullega að áhrifaríkum lausnum og uppbyggingunni sem tekur við. Hvíta húsið er meðvitað um nauðsyn þess að koma umbótum í verk og útfæra raunhæfar aðgerðir sem styðja við framgang og jöfn tækifæri stúlkna og kvenna, bæði á stóra sviðinu og hér heima. Jafnrétti er ekki að fullu náð og heimurinn hefur ekki efni á að láta það reka á reiðanum lengur.
Það er okkur því í senn mikilvægt og skylt að leggja okkar af mörkum, bæði í orði og á borði.
Hvíta húsið hefur starfað eftir virkri jafnréttisáætlun frá árinu 2016. Síðan þá höfum við markvisst unnið að því að auka vægi kvenna í öllum deildum stofunnar, ekki síst í kjölfar könnunar sem gerð var á meðal aðila að Sambandi íslenskra auglýsingastofa árið 2016, en þar var staðfest sem öllum var ljóst – að verulega hallaði á hlut kvenna. Stjórn Hvíta hússins er því skipuð bæði konum og körlum í samræmi við lög, stjórnendur eru til jafns konur og karlar, og einnig lykilstarfsmenn. Við erum því framarlega í okkar geira hvað jafnrétti varðar, en mikilvægt er að enginn sofni á verðinum og að jafnréttismálum verði fylgt vel úr hlaði, einkum þegar sú ógn sem við nú búum við hefur meiri og verri áhrif á konur.
Við getum því með sanni sagt að þátttaka okkar í Heimsþingi kvenleiðtoga skipti okkur máli.