Sjávarútvegsráðstefnan hefur verið haldin árlega frá 2010 og er einn helsti vettvangur sjávarútvegsfyrirtækja og þeirra sem þjónusta þennan undirstöðuatvinnuveg til að hittast og kynna verk sín og hugmyndir.
Okkur á Hvíta húsinu finnst þetta frábær samkoma sem ætti allt það besta skilið enda höfum við verið fastagestir á ráðstefnunni allt frá upphafi. Þess vegna ákváðum við að bjóða aðstandendum hennar aðstoð okkar og sérfræðiþekkingu núna í sumar, þegar níunda ráðstefnan stóð fyrir dyrum. Niðurstaðan var sú að Hvíta húsið gerðist styrktaraðili Sjávarútvegsráðstefnunnar næstu þrjú árin.
Bjarki Lúðvíksson hönnuður tók útlit ráðstefnunnar í gegn, og endurhannaði kynningarefni hennar með miklum glæsibrag eins og sjá mátti í aðdraganda ráðstefnunar, sem að þessu sinni var haldin í Hörpu 15.–16 nóvember sl. Hér má sjá sýnishorn af vinnu Bjarka fyrir ráðstefnuna.
Hvíta húsið hefur langa reynslu af samvinnu við stór og smá sjávarútvegsfyrirtæki, sem og fyrirtæki sem veita þeim þjónustu á öllum sviðum. Þess vegna var ekki úr vegi að við sjálf værum með bás á ráðstefnunni til að hitta nýja og gamla kunningja. Básinn okkar og kynningarefni benti þeim sem vildu vita hvað við höfum upp á að bjóða.