Jess við erum jöfn

Guðmundur Bernharð Flosason

Fyrir tæplega ári síðan óskuðum við á auglýsingastofunni Hvíta húsinu eftir jafnlaunavottun, þ.e.a.s. við skiluðum inn umsókn til VR um slíka vottun.
Okkur grunaði að það væri afar hollt fyrir fyrirtæki af okkar stærðargráðu, með starfsmenn á bilinu 37–40 manns, að fara í gegnum það ferli sem þarf til að öðlast vottun af þessu tagi. Einnig vissum við að það yrði mikil áskorun þar sem við erum ekki með skilgreindan mannauðsstjóra.

Lærdómurinn af þessari vegferð kom okkur skemmtilega á óvart og var ávinningurinn af vinnunni mun meiri en við áttum von á. Jákvæðast var þó að fá staðfestingu á því að á okkar vinnustað ríkir jafnrétti, hvort sem það er í formi jafnra launa kynjanna fyrir sambærileg störf, útdeilingu verkefna og ábyrgðar, starfsþróunar eða annarra þátta. Hlutfall kvenna og karla er nákvæmlega 50/50 og í stjórn fyrirtækisins eru tvær konur og þrír karlar. Við erum stolt af þessu og viljum trúa því að jafnrétti sé tvinnað inn í vinnustaðarmenninguna en það er frábært að fá stimpil upp á það líka. Fyrsta konan til að verða formaður Sambands íslenskra auglýsingastofa tók við því kefli á árinu og hún kemur úr okkar röðum. Við erum líka stolt af henni og þeim árangri sem hún hefur nú þegar náð í því hlutverki.


Það er ekki þrautalaust fyrir skapandi einstaklinga á auglýsingastofu að fara í gegnum þetta ferli. Svo mörg „leiðinleg“ hugtök fylgja svona vinnu: verkferlar og flæðirit, vottun og viðmið og starfaflokkun og því um líkt. Fyrstu hugsanirnar voru „er ekki hægt að breyta nafninu á þessu?“,  „er ekki hægt að gera þetta eitthvað meira „sexí“ svo fyrirtæki hreinlega geti hugsað sér að fara í gegnum þetta?


Niðurstaða okkar eftir þetta allt var að það þyrfti sannarlega að markaðssetja betur til smærri fyrirtækja ávinninginn af því að fara í þessa vinnu því hann er svo langt umfram það að vera bara einhver stimpill á plakat. 


Ávinningurinn er nefnilega margþættur og sjálfsagt hlutfallslega miklu meiri fyrir smærri fyrirtæki en stærri, því þetta er lærdómsferli; þjálfun í jafnréttismiðuðum og stefnumiðuðum mannauðsmálum, innleiðing agaðri vinnubragða og alls þess góða sem fyrirtæki getur fengið út úr því að fókusera á mannauðinn og hvað í honum býr. Við lögðum mikla vinnu í að gera okkur að betra fyrirtæki, setja okkur markmið og staðfesta jafnrétti innan okkar raða. Við sjáum ekki eftir einni einustu sekúndu.

Almenn staða mannauðsmála
Lítli þekking hefur verið á stöðu mannauðsmála innan minni fyrirtækja á Íslandi hingað til. Yfirgnæfandi meirihluti fyrirtækja af þessari stærðargráðu eru ekki með starfandi mannauðsstjóra. Sú staðreynd bendir til þess að minni líkur séu á að fyrirtæki með undir t.d. 50 starfsmenn hafi skýra mannauðsstefnu, skilgreind markmið í mannauðsmálum, hafi greint hæfni og fræðsluþörf mannaflans, eigi starfsmannahandbók eða formlegt ferli fyrir mótttöku nýliða og svo mætti áfram telja.

Við höfum ekki tíma!
Það væri örugglega svar margra í forsvari fyrir minni fyrirtæki. Og það er sjálfsagt að einhverju leyti rétt og fer að sjálfsögðu eftir rekstrargrundvelli hvers fyrirtækis fyrir sig. En jafnrétti og það að tryggja jafnan hlut kynjanna í launum fyrir sambærileg störf er á ábyrgð allra í forsvari fyrirtækja af öllum stærðargráðum. Það er ábyrgð samfélagsins og fyrst og fremst þess vegna á ekkert fyrirtæki að skorast undan þeirri áskorun að rýna sinn launastrúktúr og velta fyrir sér hvernig hann varð til, af hverju erum við að borga svona laun og fyrir hvað? Hvert er framlagið og hverjar eru kröfurnar? Ef niðurstaðan endurspeglar jafnrétti, frábært, en ef ekki er aðgerða þörf.

Hér er að finna frekari upplýsingar um jafnlaunastefnu og jafnlaunakerfi.

Höfundur greinar er Anna Kristín Kristjánsdóttir, ráðgjafi hjá Hvíta húsinu.

 


 • 17.04.2019

  Góð hugmynda­söfnun

  Við elskum góðar hugmyndir. Þær eru okkar ær og kýr. Þess vegna ætti það ekki að koma neinum á óvart að árleg hugmyndasöfnun Reykjavíkurborgar er okkur ákaflega kært og skemmtilegt verkefni.
  Nánar
 • 14.02.2019

  Hvíta húsið heldur út í heim

  Eða svona næstum. Á dögunum gerðum við samstarfssamninga við þrjár stofur til þess að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á enn breiðari þjónustu. Hvíta húsið er nú aðili að PR og samskiptastofunni FleishmanHillard, sem er með yfir 100 skrifstofur í 30 löndum og getur hjálpað íslenskum fyrirtækjum að ná alþjóðlegum eyrum (og augum).
  Nánar
 • 04.01.2019

  Halldór Guðmundsson

  Í dag kveðjum við í Hvíta húsinu okkar helsta leiðtoga. Að öðrum ólöstuðum hefur enginn haft eins mikil áhrif á hvernig við hugsum og vinnum og Halldór Guðmundsson, sem var framkvæmdastjóri stofunnar í 35 ár og stjórnarformaður í 12 til viðbótar. Við sendum fjölskyldu Halldórs og vinum hlýja strauma og munum halda áfram að reyna að gera hann stoltan og glaðan með verkum okkar um alla framtíð.
  Nánar
 • 18.12.2018

  Við erum öll í sjávarútvegi

  Sjávarútvegsráðstefnan hefur verið haldin árlega frá 2010 og er einn helsti vettvangur sjávarútvegsfyrirtækja og þeirra sem þjónusta þennan undirstöðuatvinnuveg til að hittast og kynna verk sín og hugmyndir.
  Nánar
 • 10.12.2018

  Myndmerki TERN Systems verðlaunað

  Nýverið hlaut merki sem hannað var hér á Hvíta húsinu verðlaun í WOLDA – Worldwide Logo Design Award.
  Nánar
 • 16.11.2018

  Hvíta húsið tilnefnt til alþjóðlegra auglýsinga­verðlauna

  Auglýsingar Klúbbsins Geysis um geðheilsu hlutu í haust tilnefningu til Global Awards, sem verðlauna framúrskarandi auglýsingar um heilsu og vellíðan. Hvíta húsið var þar í flokki með alþjóðlegum auglýsingastofum á borð við McCann, Havas og Mullen Lowe.
  Nánar
 • 17.10.2018

  Settu svip á umhverfið

  Bás á ráðstefnu eða vörusýningu – er það ekki svolítið eins og að auglýsa í blaði þar sem eru eintómar auglýsingar? Jú, en samt með þeim fyrirvara að allir (eða flestir) þeir sem sækja slíka viðburði hafa áhuga á því sem verið er að fjalla um. Engu að síður þarf talsvert átak til að fanga athyglina í umhverfi þar sem allir eru að reyna hið sama, jafnvel að tala um sama hlutinn.
  Nánar
 • 10.08.2018

  Er teikning kannski málið?

  Mynd segir meira en þúsund orð. Það eru ekkert margir áratugir síðan „mynd“ þýddi ekki sjálfkrafa „ljósmynd“ í hugum okkar, heldur málverk eða kannski öllu heldur: teikning. Þegar kemur að því að hitta naglann á höfuðið hefur teikningin ennþá oft forskotið sem hún hafði í hellunum þar sem forfeður okkar rissuðu upp myndir af loðfílum og annarri bráð.
  Nánar