Blogg

Verstu leturgerðirnar

Hönnuður

Emil

Hönnuður
Emil færir í letur — Eins og gengur og gerist með flesta hluti þá njóta leturgerðir mismikillar virðingar ekki síst meðal þeirra sem fást mikið við letur. Þau letur sem njóta þess vafasama heiðurs að teljast meðal þeirra verstu eru þó ekki endilega slæm letur því sum þeirra hafa einfaldlega verið misnotuð eða ofnotuð og þá gjarnan við tækifæri sem hæfa ekki karaktereinkennum letursins.

Eins og gengur og gerist með flesta hluti þá njóta leturgerðir mismikillar virðingar ekki síst meðal þeirra sem fást mikið við letur. Þau letur sem njóta þess vafasama heiðurs að teljast meðal þeirra verstu eru þó ekki endilega slæm letur því sum þeirra hafa einfaldlega verið misnotuð eða ofnotuð og þá gjarnan við tækifæri sem hæfa ekki karaktereinkennum letursins. Tíðarandinn breytist líka stöðugt. Það sem eitt sinn þótti meiriháttar smart þykir í dag meiriháttar hallærislegt. Mörg letur hafa síðan einfaldlega komist í slæmudeildina með því að vera svo óheppin að fylgja stýrikerfi tölva og komist þannig í hendur fjölda notenda með misgott auga fyrir smekklegheitum

Letrin átta sem ég nefni hér að neðan eru gjarnan nefnd meðal verstu leturgerða nú á tímum. Hver og einn verður síðan að dæma fyrir sig hvort þau eigi það öll skilið. Mörg önnur letur gætu auðvitað átt heima þarna líka.

Verstuletur

Comic Sans er eiginlega frægasta versta letrið í dag. Það er svo illa liðið að hægt er að fá viðbætur í tölvur sem hreinsa það burt úr tölvunni og til er vefsíða sem heitir ban comic sans. Eins og nafn letursins gefur til kynna er það hugsað til notkunar í gríni hverskonar og þá helst í texta við skrípamyndir. Enginn sem vill láta taka sig alvarlega ætti því að nota þetta letur en því miður hafa margir flaskað á því.

Brush script var teiknað árið 1942. Það hefur talsvert verið notað á allskonar auglýsingaefni í gegnum tíðina en er nú algerlega komið úr móð. Þetta er ágætt dæmi um letur sem alls ekki má nota í hástöfum, ekki frekar en önnur hallandi skriftarletur. Samt sjást oft dæmi um slíka misnotkun.

Hobo hefur sjálfsagt verið elskað á hippaárunum en í dag elska margir að hata þennan font. Sveigðu línurnar eru í anda jugent stílsins frá aldamótunum 1900 en letrið var annars teiknað árið 1910. Hobo er ágætt þegar höfða á til barna og dýra en í öðrum tilfellum ættu menn að hugsa sig tvisvar um.

Marker Felt er helst nothæft þegar markmiðið er að gera eitthvað verulega ódýrt. Við erum því kannski að tala um brunaútsölu.

Zapf Changery er í sjálfu sér ekki slæmt letur í lágstöfum en er auðvitað algerlega bannað í hástöfum öðrum en upphafsstaf. 

Cooper Black er mjög í anda 8. áratugarins en í dag ætti enginn að nota þennan font nema að vera mjög meðvitaður um hvað hann er að gera.

Mistral er mjög óformlegt skriftarletur. Það náði dálitlum vinsældum á 9. áratugnum þegar menn vildu poppa sig aðeins upp.

Arial kemur hér að lokum og er eina steinskriftarletrið í upptalningunni. Það hefur það helst á samviskunni að vera hannað sem skrifstofustaðgengill hins fræga Helvetica leturs án þess að ná elegans fyrirmyndarinnar.

- - - -

Það má hér í lokin minna á þennan frábæra DVD-disk um Bíladaga á Akureyri. Þó ekki væri nema til þess að dást að Mistral letrinu.

Bíladagar

 


Bara Helvetica

Hönnuður

Emil

Hönnuður
Emil færir í letur — Allar leturgerðir hafa sinn karakter. Sum letur eru flippuð eða flúruð og önnur eru fáguð og virðuleg. Sum letur eru framúrstefnuleg á meðan önnur eru forn eða klassísk. Svo eru til letur sem eru svo hógvær að þau falla í fjöldann án þess að nokkur veiti þeim sérstaka athygli. Eitt þeirra er hið stílhreina letur Helvetica en það er svo venjulegt á að líta, að ósjálfrátt segja menn gjarnan bara Helvetica ef það ber á góma. Þó er það eitt dáðasta og mest notaða steinskriftarletur letur sem komið hefur fram.

Emil færir í letur — Allar leturgerðir hafa sinn karakter. Sum letur eru flippuð eða flúruð og önnur eru fáguð og virðuleg. Sum letur eru framúrstefnuleg á meðan önnur eru forn eða klassísk. Svo eru til letur sem eru svo hógvær að þau falla í fjöldann án þess að nokkur veiti þeim sérstaka athygli. Eitt þeirra er hið stílhreina letur Helvetica en það er svo venjulegt á að líta, að ósjálfrátt segja menn gjarnan bara Helvetica ef það ber á góma. Þó er það eitt dáðasta og mest notaða steinskriftarletur letur sem komið hefur fram.

Helvetica letrið er ættað frá Sviss og nefnt eftir fornu latnesku heiti landsins Confœderatio Helvetica. Hönnuður letursins Max Miedingar er að sjálfsögðu svissneskur en letrið kom upphaflega fram undir heitinu Neau Haas Grotesk árið 1957. Stundum er talað um „Svissneska skólann“ í grafískri hönnun en sá stíll einkennist af miklum hreinleika og formfestu og þykir mjög vitsmunalegur. Helvetican féll mjög vel að þessum hreina stíl enda hvert smáatriði þaulhugsað og vandlega frágengið þannig að næstum má tala um fullkomnun í formum.

Helvetica þykktirEn auðvitað hefur Helvetica sinn karakter. Þetta er steinskriftarletur eins og þau letur eru kölluð sem eru án þverenda en slík letur fóru ekki að vera algeng fyrr en eftir aldamótin 1900. Ef til vill má líta á Helveticu nú orðið sem grunnletur allra steinskriftarletra líkt og Times letrið er á meðal fótaletra. Helvetica er mjög læsilegt letur og er því mikið notað samfelldum texta og þykir hentugt í allskonar smáaletursútskýringar auk misskemmtilegra eyðublaðatexta. Helvetican nýtur sín þó vel í meiri stærðum þar sem hin stílhreina teikning í hverjum staf kemur vel fram. Það er enda ekki að ástæðulausu að Helvetica, og þá sérstaklega Bold útgáfan, er notuð í fjöldamörgum merkjum stórfyrirtækja um allan heim.
Helvetica dæmi
Oft hefur notkun Helveticu ekki þótt standa fyrir miklu dirfsku og frumlegheit í grafískri hönnun. Á hippaárunum þótti Helvetican til dæmis alltof stíf og leiðinleg og á níunda áratugnum var hún ekki nógu fríkuð og framúrstefnuleg. Á síðustu 10-15 árum hefur Helvetican hinsvegar fengið einskonar uppreisn æru á sama hátt og eðalhönnun sjötta áratugarins, ekki ósvipað og stólarnir hans Arne Jakobsen.

Til eru nokkur letur sem eru mjög svipuð Helveticu, t.d. Univers og skrifstofuletrið Arial. Ef einhver vill þekkja Helveticu frá þessum letrum og öðrum er ágætt að miða við nokkur atriði

 1. Hver stafaendi er skorinn beint lárétt eða lóðrétt. Þetta sést vel í bold útgáfunum.
 2. Skáleggurinn í stóra R er sveigður. (Atriði 1 og 2 eiga einnig við Univers)
 3. Í tölustafnum 1 myndast rétt horn þar sem litla strikið er. 
 4. Bókstafurinn stóra G er með lóðrétt strik í endann auk lárétta striksins.
 5. Litla a í light og regular letrinu endar í greinilegu sveigðu skotti.

HelveticaUniversArial

- - - - - - 

Að lokum má svo nefna að Helvetica er meðal örfárra leturheita sem fallbeygjast í íslensku (Helvetica – um Helveticu – o.s.frv.) og er jafnvel notuð með greini eins og kemur fyrir hér í pistlinum.


Steinskriftin kemur til sögunnar

Hönnuður

Emil

Hönnuður
Emil færir í letur — Það má skipta letri í ýmsa flokka eftir útliti, en þó má segja að þrír meginflokkar séu í boði: fótaletur, steinskrift og skriftarletur. Ef við undanskiljum skriftarletur þá datt fáum í hug fram að 20. öld í hug að sleppa þverendum í letri, það þótti bara ekki nógu fallegt. Fótalaus letur voru þó einstaka sinnum notuð í hástöfum, t.d. þegar letur var höggið í stein og því eru þau t.d. hér á landi kölluð steinskrift. Á 19. öld þegar þörfin jókst fyrir sterk og ákveðin letur í auglýsingaplakötum fór æ oftar að sjást fótalaus letur en þau voru þá oftast notuð í bland við aðrar skrautlegri og klassískari leturgerðir.

Emil færir í letur —  Það má skipta letri í ýmsa flokka eftir útliti, en þó má segja að þrír meginflokkar séu í boði: fótaletur, steinskrift og skriftarletur. Ef við undanskiljum skriftarletur þá datt fáum í hug fram að 20. öld í hug að sleppa þverendum í letri, það þótti bara ekki nógu fallegt. Fótalaus letur voru þó einstaka sinnum notuð í hástöfum, t.d. þegar letur var höggið í stein og því eru þau t.d. hér á landi kölluð steinskrift. Á 19. öld þegar þörfin jókst fyrir sterk og ákveðin letur í auglýsingaplakötum fór æ oftar að sjást fótalaus letur en þau voru þá oftast notuð í bland við aðrar skrautlegri og klassískari leturgerðir.

SansSerif

Fótalaus letur voru á 19.öld gjarnan kölluð Grotesque enda þótt þau vera klossuð og „grótesk“ í útliti, einnig voru þau stundum kölluð Gothic. Í dag eru letrin erlendis almennt kölluð Sans Serifs eða án þverenda og Serifs eru þá þau letur kölluð sem heita fótaletur upp á íslensku. Fyrsta steinskriftin sem teiknuð var fyrir prent og innihélt bæði lágstafi og hástafi kom fram árið 1832 og var einfaldlega kölluð Grotesque.

Akzidenz

Fyrstu steinskriftarletrin sem hinsvegar náðu almennilegri útbreiðslu voru teiknuð nálægt aldamótunum 1900. Af þeim er elst Akzidenz-Grotesk letrið sem kom fram 1898. Það er mjög nútímalegt og venjulegt að sjá og lýkist mjög þeim steinskriftarletrum sem margir þekkja sem Helveticu og Arial en þau hafa einmitt þessi elstu steinskriftarletur sem fyrirmynd. Þessi letur þykja gjarnan vera karakterlaus enda má segja að þau séu eins laus við stæla og hugsast getur, en það þarf þó ekki að vera neikvætt því stundum er einmitt þörf fyrir slíkt. 

futura

Steinskriftarletrin fór ekki að njóta almennilegrar virðingar fyrr en hinn móderníski stíll kom til sögunnar á 3. og 4. áratug 19. aldar. Þar hafði kannski mest áhrif hinar framúrstefnulegu hugmyndir sem kenndar hafa verið við Bauhaus skólann í Þýskalandi. Þar dásömuðu menn hin hreinu form svo sem hring og ferning. Allt átti að vera hreint og beint og umfram allt laust við óþarfa skraut og prjál.
Útfrá þessum hugmyndum urðu til letur sem kalla má geómetríska steinskrift. Frægast þeirra er sjálfsagt Futura letrið og ber það líka nafn með rentu en það var hannað í Þýskalandi 1928. Það einkennist af því sem næst hreinum hringformum þar sem því er viðkomið. Futura er mjög algengt letur enn í dag og er til í ýmsum þykktum allt frá örfínu upp í ofurþykkt en auk eru samanþjappar útgáfur nokkuð algengar. 

Underground

Annað letur mjög algengt frá þessum tíma er Gill Sans letrið frá árinu 1929. Það á reyndar uppruna sinn í eldra letri sem teiknað var árið 1913 fyrir neðanjarðarlestarkerfi Lundúna. Þar sáu menn einmitt þörfina fyrir einfalt letur sem hægt væri að lesa með hraði eða úr góðri fjarlægð. Líkt og í Futuru einkennist Gill Sans af hreinum hringformum í hástöfum eins og O og G en annars þykir Gill letrið falla undir flokk húmanískrar steinskriftar sem þýðir og formin eru mannlegri og ekki eins afdráttarlaus. Gill Sans er eitt af þessum letrum sem má finna víða í dag en það má þó segja að Skandínavar og Bretar hafi haft sérstakt dálæti á því.

Eiginlega má segja að með steinskriftinni hafi leturþróun náð vissum endapunkti þar sem ekki var hægt að ganga lengra í einföldun leturs án þess að það komi niður á læsileikanum. Það hefur þó aldrei orðið neitt lát á útkomu nýrra leturgerða þar sem tískan og tíðarandinn kallar sífellt á nýjungar.


 • Jess við erum jöfn

  Fyrir tæplega ári síðan óskuðum við á auglýsingastofunni Hvíta húsinu eftir jafnlaunavottun, þ.e.a.s. við skiluðum inn umsókn til VR um slíka vottun...
  Nánar
 • Mannauður, menntun og reynsla

  Í sumar efndum við Hvítingjar til vinnudags og eitt meginþema dagsins var mannauðurinn sem býr í starfsfólki stofunnar og tryggð starfsfólks við stofuna. Í aðdraganda dagsins var starfsfólk beðið um að taka stuttlega saman yfirlit yfir menntun sína, annars vegar, og hvað þau hefðu getað hugsað sér að gera ef þau hefðu ekki farið þá leið sem þau fóru inn í auglýsinga- og markaðsbransann.
  Nánar
 • Skafti gerði skissu

  Skafti teiknistofusjóri fór af rælni að blaða í skissu- og minnisbókunum sínum um daginn og rakst þá á nokkrar grófar teikningar sem síðar urðu að auglýsingum.
  Nánar
 • Frá Versölum til villta vestursins

  Emil færir í letur — Þau letur sem algengust eru í dag eiga sér mislanga sögu. Klassísk bókaletur eiga gjarnan sínar fyrirmyndir frá upphafsöldum prentlistarinnar þar sem stíllinn byggist á skrift með breiðpenna og því eru línur misþykkar eftir því hvernig strikunum hallar. Þverendar á endum leggjanna þóttu ómissandi fegurðarauki en notkun þeirra má að minnsta kosti rekja aftur til Rómverska hástafaletursins. Minniháttar stílþróun áttu sér alltaf stað en þegar auglýsingaletrin komu fram á 19. öldinni má segja að allt hafi fari úr böndunum.
  Nánar
 • Herferð Hvíta hússins fyrir Vodafone RED til Úkraínu

  Auglýsingaherferðin „Vodafone RED“ sem Hvíta húsið gerði fyrir Vodafone á Íslandi og kom fyrst fyrir augu Íslendinga í mars árið 2014 hefur verið keypt af Vodafone í Úkraínu til notkunar þar í landi.
  Nánar
 • Metsala á Mercedes-Benz

  Það er gaman að auglýsa gæðavörur. Það er ekki síður gaman að sjá árangur þeirra auglýsinga. Á þessu ári hafa fleiri nýir Benz-bílar ratað til eigenda en nokkru sinni fyrr. Við óskum þeim til hamingju og lítum á þessar fréttir sem áskorun um að gera enn betur fyrir viðskiptavini okkar.
  Nánar
 • Verkfærið sem drap verkefnið sitt

  Á síðasta ári setti Bic af stað herferð sem þeir kölluðu „Fight for Your Write“ sem átti að auka vægi skriftar og þá fyrst og fremst með því að koma kúlupennum þeirra í hendur barna og annarra þeirra sem þurfa að skrifa eða ættu að skrifa meira. Í þessari grein í The Atlantic frá síðasta ári lýsir Josh Giesbrecht þeirri skoðun sinni að Bic sé reyndar einn af stóru gerendunum í því að breyta og draga úr handskrift.
  Nánar
 • Hönnunin hálf eða hrein?

  Á vafri mínu um vefinn rakst ég á myndaseríu á imgur þar sem er að finna 80 kvikmyndaplaköt án texta.
  Nánar