Blogg

Hið forneskjulega Únsíal letur

Hönnuður

Emil

Hönnuður
Emil færir í letur — Sú leturgerð sem var allsráðandi í Evrópu á tímabilinu 400-800 hefur verið kölluð Únsíal letur og ber það öll einkenni þess að vera einskonar millistig hástafa og lágstafa.

Það vestræna letur sem við notum nú á dögum skiptist í HÁSTAFLETUR  og lágstafaletur þar sem meginreglan er sú að nota lágstafina í öllu meginmáli en hástafina í upphafi setninga og í sérnöfnum. Þessa gömlu hefð má rekja aftur til skrifara sem uppi voru á dögum Karlamagnúsar um árið 800 eða jafnvel fyrr. Á dögum Rómverja var einungis notast við hástafaletur enda var þá ekki um neitt lágstafaletur að ræða. Þegar farið var að skrifa upp guðsorð í stórum stíl á fyrstu öldum kristninnar þróaðist þetta hástafaletur í átt til léttari skriftar sem einkenndist af meiri bogalínum en verið hafði áður þannig að fljótlegra varð að skrifa. Þessi þróun varð til þess að lágstafirnir urðu til, menn höfðu þó ekki gleymt hástöfunum sem þóttu hátíðlegri og voru því áfram notaðir í fyrirsagnir og önnur virðulegheit eða bara eins og við notum þá í dag. 

Trajan/Omnia

Sú leturgerð sem var allsráðandi í Evrópu á tímabilinu 400-800 hefur verið kölluð Únsíal letur og ber það öll einkenni þess að vera einskonar millistig hástafa og lágstafa. Ólíkt hinu rómverka letri er hringformið þarna áberandi en hugsanlega má rekja það til fornrar gotneskrar skreytilistar sem byggði mjög á bogdregnum línum og fléttum. Til eru nokkrar nútímaútgáfur af Únsíölum (Uncial letters) og ber ein sú dæmigerðasta nafnið Omnia og er það sýnt hér ásamt hinu Rómverska hástafaletri. Sumir bókstafirnir hafa ekki breyst mikið en mesta þróunin hefur orðið á stöfum á borð við A, D, M og H. Annað sem hefur breyst er að sumir stafir teygja sig upp fyrir leturhæðina og aðrir ná niður fyrir og er það einmitt eitt einkenni lágstafana okkar í dag. Þetta letur er eins og aðrir Únsíalar einingis til sem hástafaletur, eða lágstafaletur eftir því hvernig á að skilgreina það.

BookOfKellsÚnsíal letur datt að mestu uppfyrir á 9. öld þegar nútímalegri Karlungaletur komu fram og síðar hin skrautlegu og köntuðu gotnesku letur sem enn má t.d. sjá á mörgum blaðahausum eins og á Morgunblaðinu. Únsíal letur héldu þó lengst velli á Írlandi enda er það einskonar þjóðarletur þeirra og nota Írar það óspart þegar þeir vilja minna á sinn forna menningararf.

Á Írlandi var einmitt Book of Kells skrifuð en hún er talin meðal fegurstu bóka sem ritaðar hafa verið. Myndin hér til vinstri er úr þeirri bók en letrið þar flokkast sem hálf-únsíall sem er afbrigði af þessu letri. Þessi írska útgáfa er líka stundum kölluð eyjaskrift (insular script).


Mynd: John R. Ward/DESIGNJUNCTION
Mynd: John R. Ward/DESIGNJUNCTION
Wired birti nýlega áhugaverða grein um lesblindu meðal hönnuða og þátt lesblindunnar í hæfileikum þeirra til að hugsa öðruvísi en flestir.

Wired birti nýlega áhugaverða grein um lesblindu meðal hönnuða og þátt lesblindunnar í hæfileikum þeirra til að hugsa öðruvísi en flestir.

Sem textamaður og prófarkalesari kom efni greinarinnar mér lítið á óvart. Það er alkunna að hönnuðir eru upp til hópa fremur hlynntir persónulegri stafsetningu og væri það til að æra óstöðugan prófarkalesara að tína til dæmi um slíkt. Grein Wired fjallar einmitt um hve algengt sé að lesblindir hönnuðir séu uppfullir af frumlegum hugmyndum og búi yfir hæfileikum til þess að sjá hluti frá óvæntu sjónarhorni.

Greinina má lesa hér.


Gotneskt letur

Hönnuður

Emil

Hönnuður
Emil færir í letur — Í þessum pistli ræðir Emil um Gotneskt letur, sem var einkennisletur síðmiðalda og lifði áfram í prentverki fram eftir öldum.

Emil færir í letur — 

Áfram skal haldið með letursögu og nú er komið að því merkilega hliðarskrefi sem gotneska letrið er en það var einkennisletur síðmiðalda þótt það hafi víða verið notað áfram í prentverki næstu aldirnar. Á síðustu öldum miðalda leitaði menning hins kaþólska heims til hæstu hæða og sem allra næst sjálfu himnaríki. Hinn rómanski bogi sem áður hafði einkennt kirkjubyggingar fékk á sig odd sem teygði sig upp á við og úr varð hinn hvassi gotneski stíll. Á sama hátt snéru biblíuskrifarar Mið- og Norður-Evrópu við blaðinu, lögðu til hliðar hina rúnnuðu Karlungaskrift og tóku upp þetta háa og kantaða letur sem hefur verið kallað gotneskt letur. Þessi leturþróun var þó kannski ekki bara fagurfræðilegt tískufyrirbæri heldur líka praktískt því með gotnesku skriftinni var hægt að skrifa þéttar sem sparaði dýrmætt bókfell auk þess sem leturgerðin bauð upp á ýmsar styttingar með sameiningu einstakra stafa eins og sést í dæminu hér að neðan.

 

Handskrifað textúr-letur í enskri Biblíu frá árinu 1407.

Mynd:Handskrifað textúr-letur í enskri Biblíu frá árinu 1407.

 

Gotneskt letur er stundum kallað öðrum nöfnum eins og t.d. brotaletur og blackletter á ensku. Gotneska heitið festist eiginlega við þessa leturgerð sem niðrandi uppnefni húmanískra Suður-Evrópumanna sem voru á annarri og klassískari línu og héldu áfram að þróa sitt lágstafaletur í þá átt sem við þekkjum í dag.

 

Elsta og stífasta gerðin af gotnesku letri nefnist textúr og einkennist af jöfnum, lóðréttum strikum í grunninn og misbreiðum skástrikum eftir því hvernig þeim hallar gagnvart fjaðurpennanum. Bogadregnar línur eru nánast engar. Ef tekinn er bútur úr almennilegri textúr-skrift á réttum stað kemur randmynstrið og reglan í ljós.

 

 GutenbergsbiblíaFrægasta og áhrifamesta notkun á gotneska textúr-letrinu er sjálf Gutenbergsbiblía frá því um 1450-60 sem er fyrsta og eitt fallegasta stórvirki prentlistarinnar. Þar var beitt þeirri byltingarkenndri nýjung að hver stafur var handgerður og steyptur í blý og stöfunum síðan raðað upp á hverja síðu fyrir sig. Gutenberg sjálfur vildi að Biblían væri sem líkust handskrifuðum bókum og því valdi hann að nota gotneska textúr-letrið. Þessi hugsun átti eftir að vera ríkjandi áfram í prentverki um nokkurt skeið.

 

Elstu íslensku handritin voru ekki rituð með gotneskri skrift heldur hinni eldri Karlungaskrift sem var líkari lágstafaskrift okkar tíma. Um 1400 voru gotnesku letrin hinsvegar nánast allsráðandi hér í handritagerð og síðar í prentverki. Hin þétta og hvassa gerð gotneska letursins - textúr - var þó ekki notuð á prentaðar bækur hér því komnar voru fram léttari afbrigði sem buðu upp á sveigða og mýkri stafi. Gotneska leturafbrigðið sem notuð var í Guðbrandsbiblíu nefnist fraktúr sem byggist bæði á beinum og sveigðum línum sem gerir letrið læsilegra, en verður þó um leið óreglulegra á að líta í samfelldum texta heldur en textúr.

 

Mynd: Prentað fraktúr letur í Guðbrandsbiblíu frá árinu 1584.

Mynd: Prentað fraktúr letur í Guðbrandsbiblíu frá árinu 1584.

 

Hinar léttari gerðir gotnesks leturs voru mjög lífseigar fram eftir öldum á vissum svæðum og þá sérstaklega í Norður-Evrópu. Á Íslandi héldu menn áfram að prenta sínar bækur með þessum leturgerðum fram á 19. öld þó að í Evrópu hafi verið komin fram nútímalegri leturgerðir. Lífseigust urðu þessi letur þó í Þýskalandi enda þóttu þetta lengst af vera þjóðleg letur. Nasistum þótti það einnig líka í fyrstu en skiptu svo rækilega um skoðun árið 1941 eftir að þeir fóru að tengja gotnesk letur við gyðinga, hvernig sem þeir fundu það út.

Í dag eru gotnesk letur nánast ekkert notuð í samfelldum texta nema í sérstökum tilfellum. Algengt er enn í dag að nota gotnesku letrin í blaðahausa virðulegra og íhaldssamra dagblaða. Nærtækast fyrir okkur er að benda á haus Morgunblaðsins sem byggist á hinu forna textúr-afbrigði. Hinsvegar má gjarnan sjá gotnesk letur á allt öðrum og hörkulegri vettvangi t.d. meðal þungarokkara og rappara svo eitthvað sé nefnt, en þá erum við kannski komin dálítið langt frá upphaflegu hugsun leturskrifara miðalda.

 Dagblaðahausar

Snoop Dogg og Motörhead

 


 • Stjórnvísi í heimsókn

  Á dögunum kom til okkar hópur frá Stjórnvísi og Elín Helga hélt fyrirlestur um þjónustu- og markaðsstjórnun. Hún fjallaði um hvernig auka mætti skilvirkni í samvinnu auglýsingastofu og viðskiptavina.
  Nánar
 • Handbragð meistarans

  Á Hvíta húsinu starfa nokkrir hönnuðir sem hafa stundað nám í skrautskrift til lengri eða skemmri tíma. Það er fátt sem jafnast á við fallegt handverk nema þá hugsanlega það að fá að verða vitni að því þegar fær listamaður vinnur með höndunum og býr til fallega hluti. Sú er einmitt raunin í þessu myndbandi þar sem Jake Weidmann er kynntur. Eins og svo oft áður er sjón sögu ríkari.
  Nánar
 • Innri markaðssetning

  Markaðsmál hafa breyst gríðarlega mikið síðustu ár og fyrirtæki vita að það dugar ekki að ætla að ýta skilaboðum að viðskiptavinum þegar þeim hentar, á þann hátt sem þeim hentar, eins og gert var áður fyrr. Í dag vilja viðskiptavinir geta náð í þær upplýsingar sem þá vantar þegar þeir þurfa og fyrirtækin segjast „hlusta á viðskiptavini“ því þau vilji laga sig að þörfum þeirra.
  Nánar
 • Nýtt merki og ný heimasíða Veitna

  Að undanförnu hafa eflaust margir veitt athygli nýju merki og ásýnd Veitna. Ný heimasíða Veitna hefur jafnframt verið opnuð. Síðan er hönnuð með það að markmiði að viðskiptavinir geti á sem auðveldastan hátt átt rafræn samskipti við Veitur og sótt sér upplýsingar tengdar viðskiptum sínum.
  Nánar
 • Er línuleg dagskrá búin að vera?

  „Fólk er steinhætt að horfa á sjónvarp!“ Þessi alhæfing er mjög algeng hjá markaðsfólki en staðreyndin er sú að línuleg dagskrá blómstrar sem aldrei fyrr.
  Nánar
 • Ný ásýnd og merki Hvíta hússins

  Hvíta húsið opinberaði nýtt merki í síðustu viku. Nýja merkið er hluti af stærri endurmörkun sem helst í hendur við endurnýjun á húsnæði stofunnar í Brautarholtinu, þannig að það er ljóst að ásýnd þessarar elstu auglýsingastofu landsins mun taka miklum breytingum á skömmum tíma.
  Nánar
 • Hvíta húsið tekur stakkaskiptum

  Undanfarna mánuði hafa staðið yfir miklar framkvæmdir í húsnæði Hvíta hússins í Brautarholti.
  Nánar
 • Arion banki fékk ÁRUNA

  Auglýsingaherferð Arion banka „Ari­on hraðþjón­usta“, sem unnin var af Hvíta húsinu, hlaut ÁRUNA á ÍMARK deginum 4. mars s.l.
  Nánar