Innanlandsferðahugur í Íslendingum

Innanlandsferðahugur í Íslendingum

Hvíta húsið

Hvíta húsið og EMC rannsóknir könnuðu áform Íslendinga um ferðalög innanlands í sumar. Könnunin fór fram á netinu dagana 30. apríl til 7. maí og fjöldi svarenda var 758. Meðal helstu niðurstaðna eru að 88% telja líklegt að þau ferðist innanlands í sumar, 63% telja að þau muni ferðast meira innanlands en síðasta sumar og flest segjast munu ferðast í júlí.

63-reikna-med.png
mynd-5.png

Að meðaltali telur fólk að ferðadagar innanlands verði 12,4. Flest segjast munu gista í tjaldi, fellihýsi eða húsbíl, eða 59% en 40% segja líklegt að þau gisti á hótelum eða gistiheimilum. Þau sem eru líklegri til að velja hótel eða gistiheimili búa á höfuðborgarsvæðinu, eru eldri en 45 ára og í hærri tekjuhópum. Þau sem búa á landsbyggðinni og fólk sem telur fleiri en þrjú í heimili eru líklegri til að segjast ætla að gista í tjaldi, fellihýsi eða húsbíl. 

Niðurstöður könnunarinnar benda til að umtalsverður ferðavilji sé til staðar hjá Íslendingum, og að ýmis áhugaverð tækifæri séu í stöðunni fyrir ferðaþjónustuaðila víða um land. Nánar um niðurstöður könnunarinnar hér.

Flestir ætla norður

Samkvæmt könnun sem MMR gerði fyrir Ferðamálastofu í janúar sl. þá ferðuðust 14% Íslendinga eingöngu innanlands sumarið 2019 og 71% ferðuðust bæði innanlands og utan. Tekjur höfðu þarna áhrif, þau tekjulægri voru líklegri til að ferðast eingöngu innanlands en eftir því sem tekjurnar hækkuðu jukust líkurnar á að fólk ferðaðist bæði innanlands og utan. Meðalfjöldi ferða innanlands var 6,7 á árinu 2019 og meðalfjöldi gistinátta 14 (ferdamalastofa.is).