Íslendingar eru vinnusöm þjóð og það þykir almennt merki um gott vinnusiðferði að drekkja sér í vinnu. Þessa hugsunarvillu er mikilvægt að leiðrétta áður en illa fer. En fyrst þarf að viðurkenna að vandamál sé til staðar.
Kulnun í starfi er vandamál sem á sér ýmsar birtingarmyndir. Þar sem VR er meðal stærstu stéttarfélaga landsins er mikilvægt að félagið leggi sín lóð á vogarskálarnar í vitundarvakningu um kulnun. Allir geta upplifað kulnun en einkennin virðast oft koma fram hjá ákveðnum hópi fólks: metnaðargjörnum einstaklingum sem leggja allt í sölurnar til þess að standa sig vel í vinnunni.
Við nálguðumst þetta verkefni því út frá umhverfi sem félagsmenn VR geta margir tengt við: framabrautina frægu þar sem metnaður getur breyst í hindrun ef streitu er ekki haldið í skefjum. Útkoman var ein löng kvikmynduð auglýsing sem sýndi nokkur einkenni kulnunar og fimm styttri auglýsingar sem sýndu hvert einkenni fyrir sig. Auk þess voru framleiddar prentauglýsingar og vefborðar sem studdu við skilaboð kvikmynduðu auglýsinganna.
Í löngu auglýsingunni er viðfangsefnið sett í umgjörð spennumyndar, enda spenna náskyld streitu, og við fylgjumst með ungu fólki í ólíkum geirum verða einkennum kulnunar að bráð.
Hvert einkenni er svo tekið út fyrir sviga í minni auglýsingum.
Hetjurnar okkar eru þá í aðstæðum sem margt vinnandi fólk kannast því miður allt of vel við.
Einnig gerðum við vefborða þar sem hægt var að velja á milli ólíkra einkenna og giska á hvert þeirra væri einkenni kulnunar. Að baki vefborðunum var sérstök lendingarsíða með fróðleik um kulnun og uppástungur um úrræði.
Prentarmur verkefnisins rímaði svo við leiknu auglýsinguna og sýndi hetjurnar okkar á veggspjaldi þar sem við lékum okkur með myndræn minni og hefðir kvikmyndaveggspjalda.
Guðjón Jónsson hjá Saga Film leiksstýrði kvikmynduðu auglýsingunni og okkur þykir hann hafa skilað afburðaverki.