Blóðskimun til bjargar

Blóðskimun til bjargar

Háskóli Íslands

Rannsókn Sigurðar Yngva Kristinssonar og samstarfsmanna hans á áhrifum þess að skima fyrir forstigi mergæxlis er stærsta vísindarannsókn sem gerð hefur verið á Íslandi. Til að rannsóknin heppnist er nauðsynlegt að 70.000 Íslendingar hið minnsta veiti samþykki sitt til að skima megi blóðsýni frá þeim fyrir forstiginu.

Ljóst var að kynningarefni vegna rannsóknarinnar þyrfti að ná til fólks auk þess að uppfylla kröfur Vísindasiðanefndar um nálgun, skilaboð og framsetningu þeirra.

merg_skilti.jpg
merg_litil_mynd_haegri.jpg

Aðstandendur rannsóknarinnar leituðu til Hvíta hússins vorið 2016 og í framhaldinu var hafist handa við að móta stefnu og skilaboð, hanna útlit og framsetningu og velja miðla. Merki var hannað og verkefninu gefið nafnið „Blóðskimun til bjargar – þjóðarátak gegn mergæxlum“.

Auk rýni frá vísindasiðanefnd fór kynningarefnið fyrir rýnihóp, og var Akranes notað sem n.k. tilraunasveitafélag og rannsóknin kynnt þar nokkrum vikum áður en allt var sett í gang á landsvísu.

Þungamiðjan í efninu var annars vegar vefsíðan blodskimun.is þar sem allar upplýsingar um rannsóknina eru aðgengilegar og hægt er að skrá sig til þátttöku, og svo bæklingur og skráningarblöð sem send voru öllum Íslendingum 40 ára og eldri. Efnið var sett í umslag í einkennislit verkefnisins og voru grunnskilaboð annars kynningarefnis byggð í kringum spurninguna „Ert þú búin(n) að fá fjólubláa umslagið?“

Annað mikilvægt burðarefni voru myndbönd þar sem Sigurður Yngvi, fólk úr fræðasamfélaginu og heilbrigðisstéttum, fólk sem greinst hafði með mergæxli að ógleymdum verndara verkefnisins, frú Vigdísi Finnbogadóttur, sagði frá markmiðum þess og hvatti fólk til þátttöku.

Þegar lokað var fyrir skráningu, ári eftir að kynningarstarf hófst, höfðu tæplega 81 þúsund manns gefið upplýst samþykki, eða um 55% þeirra sem boðin var þátttaka, sem er einsdæmi á Íslandi og að öllum líkindum í heiminum. Herferðin vann Áruna, verðlun fyrir árangursríkustu herferð ársins 2017.