Virk starfsendurhæfingarsjóður er til svo fólk sem fellur af vinnumarkaði af einhverjum ástæðum geti komist inn á hann aftur. Virk vildi því koma af stað forvarnarverkefni svo hægt væri að minnka þetta brottfall, öllum til hagsbóta. Áskorunin var að finna réttan tón í skilaboðum til markhópsins, sem myndi vekja hann til umhugsunar um álag jafnt í einkalífi sem í starfi, án þess að predika.
Unnið var með hugsjónina „að hafa brjálað að gera“, sem spratt upp úr umræðum um dugnað – hvort hann væri séríslenskt fyrirbæri, hversu rótgróið það er að vera duglegur og aðstæður sem flest allir sem að vinnunni komu könnuðust við: að eiga heilu samtölin sem snúast bara um að hversu upptekið fólk er. Þetta innsæi var leiðarljós allrar vinnunnar.
Framleiddar voru tíu auglýsingar sem hverfast allar í kringum sömu persónuna: Sigríði Halldórsdóttur. Ákveðið var að gera Sigríði að millistjórnanda svo hún gæti verið bæði fórnarlamb og gerandi í heimi sem leggur ofuráherslu á að hafa brjálað að gera. Sigríður finnur sig því bæði í þeim aðstæðum að missa bolta vegna álags í vinnu og einkalífi og fara yfir mörk undirmanna sinna.
Til þess að undirbúa jarðveginn var sett af stað herferð um svokölluð Beacons-snjallsímagleraugu. Þessi „teaser“-herferð fór af stað viku áður en jólaauglýsingin var birt og auglýsti vöru sem er ekki til í alvörunni: snjallsímagleraugu sem myndu gera notandanum kleift að nota snjallsímann sinn þótt slökkt væri á skjánum. Fáránleiki þess að vinna bara í þágu atvinnulífsins var hér tekinn skrefinu lengra.
Þegar jólaauglýsingin fór svo í birtingu sáu glöggir áhorfendur manni með Beacons-gleraugu bregða fyrir.
Niðurstöður könnunar sem Hvíta húsið og Virk létu gera á árangri herferðarinnar benda til að hún hafi haft víðtæk áhrif á fólk.
86% svarenda höfðu séð auglýsingarnar og flestir, eða 76% segja auglýsingarnar hafa vakið sig til umhugsunar um mikilvægi jafnvægis milli vinnu og einkalífs. Athyglisvert er að auglýsingarnar virðast ná sérstaklega vel til fólks sem upplifir ójafnvægi þarna á milli. Aðeins 10% svarenda sögðust alltaf upplifa jafnvægi, 50% oftast og 40% stundum, sjaldan eða aldrei.
Næstum helmingi líkar vel við auglýsingarnar og segja að þeim líki hvað þær eru „fyndnar“ og „raunsæjar“.
Allar þessar auglýsingar lýsa lífi þess sem hefur brjálað að gera, er metnaðarfullur og hikandi við að segja nei við aukavinnu eða aukaskyldum, á fjölskyldu og heimili og reynir að sinna öllu. En eitthvað gefur alltaf eftir. Með því að hnýta fáránleikanum í handritin varð til húmor og fyndni sem gerir afurðina tragíkómíska: við þekkjum þessar aðstæður flest en vonum við að við verðum aldrei jafn djúpt sokkin og Sigríður Halldórsdóttir millistjórnandi.
Eftir teaser-inn fór hin eiginlega herferð af stað.