Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er metnaðarfullt alþjóðlegt verkefni, framkvæmdaáætlun sem er ætlað að stuðla að sjálfbærni, friði og frelsi um allan heim.
Forsætis- og utanríkisráðuneytin efndu til samkeppni meðal nokkurra auglýsingastofa og kölluðu eftir hugmyndum að herferð til að auka vitund almennings um Heimsmarkmiðin - að fólk skilji hugtakið og og þekki megininntak markmiðanna.
Við lögðum nokkur höfuð í bleyti og kynntum á endanum tvær hugmyndir fyrir aðstandendum verkefnisins. Önnur þeirra varð fyrir valinu til að kynna Heimsmarkmiðin fyrir Íslendingum. Til gamans má geta þess að hin hugmyndin okkar var geymd en ekki gleymd og vinna er farin í gang við að hrinda henni einnig i framkvæmd.
Sigurtillagan er hugverk Stefáns Einarssonar. Hún gekk út á að skoða árangur Heimsmarkmiðanna, nái þau fram að ganga. Ef svo fer verða ótal góðar fréttir sagðar í öllum miðlum. Út á það gekk herferðin: góðar fréttir úr framtíðinni.
Við sömdum ótal fréttir af bættum heimi: um sigur í stríðinu við loftslagsvána, um stytrri lista yfir dýr í útrýmingarhættu og erfiða tíma hjá vopnaframleiðendum. Já og nýlendu á tunglinu og tóbakslaust Ísland. Smáar og stórar fréttir. Við settum þær upp sem fréttir í blöðum, netmiðlum og fengum sjálfan Loga Bergmann til að bregða sér í gervi fréttaþuls á „virðulegum aldri“ til að segja sjónvarpsfréttir af betri heimi.