Íslensk náttúra, tærleiki loftsins, ís og snjór, er auðvitað það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar á að auglýsa Ísey skyr. Þannig að það var ekkert erfitt að fá hugmyndina um skautadrottningu að leika listir sínar á ísilögðu vatni.
Framkvæmdin var hinsvegar allt annað en einföld. Fyrst þurfti að finna ísilagt vatn umvafið óspjallaðri náttúru. Veðurskilyrði þurftu að vera fullkomin á sama tíma og ísinn væri mannheldur. Enda biðum við í heila tvo mánuði. Og það var ekki nóg að finna einn flinkan skautara sem gat dansað samfleytt á ísnum í átta klukkustundir, heldur þurfti myndatökumaðurinn líka að geta fótað sig á skautum og haldið í við stjörnuna.
Svo rann upp þessi fallegi dagur, þar sem allt small saman; veðrið, vatnið, náttúran og hæfileikaríkt fólk sem sýndi fimi sína og styrk á ísnum þannig að glæsileg útkoman fær að njóta sín um heim allan – eins og Ísey skyr.