Mörkun – Almannavarnir COVID-19

Þegar við fengum það verkefni að hanna og sjá um auglýsinga- og kynningarefni fyrir Almannavarnir vegna COVID-19 heimsfaraldursins þurfti bæði að vinna hratt og búa sig undir ófyrirsjáanlegt langhlaup.

Verkefnið hefur teygt anga sína víða og útlitið hefur þróast. Frá upphafi höfum við þó unnið út frá þremur leiðarljósum sem mótuðu bæði útlit og efnistök og hefur haldið skýrri stefnu fyrir ólík verkefni:

Hlýleika: til að skapa öryggiskennd á erfiðum tímum.

Einfaldleika: til að tryggja að lífsnauðsynlegar upplýsingar komist til skila.

Sveigjanleika: til að auðvelt sé að bregðast hratt við ófyrirséðum aðstæðum.

Tónn allra skilaboða var blátt áfram án þess að vera stuðandi, hlýr án þess að vera tilfinningasamur og var ætlað að skapa tilfinningu fyrir samkennd og samvinnu frekar en boðum og bönnum.

Formin voru einföld og afgerandi og buðu upp á fjölbreytta samsetningu og notkun til að undirstrika merkingu og beina athygli að aðalatriðum.

Teiknistíll sem getur stutt við fjölbreytt skilaboð. Er einfaldur og sveigjanlegur svo auðvelt sé að bregðast hratt við ófyrirséðum aðstæðum.

Markmiðið hefur ávallt verið að koma áreiðanlegum upplýsingum um faraldurinn til almennings. Vefsíðan covid.is hefur verið miðpunktur upplýsingagjafarinnar. Þangað er fólki beint af öllu auglýsingaefninu og hönnun hennar byggir á sömu leiðarljósum.