Haustið 2020 fengum við það verkefni að þróa herferð um hvernig Icelandair kom til móts við farþega í gjörbreyttu landslagi í flugsamgöngum á tímum heimsfaraldurs. Mikilvægt var að herferðin myndi minna á gleðina við utanlandsferðir, bæði til þess að kveikja ferðaþrá hjá markhópnum og til þess að hvetja þá til þess að bóka fram í tímann. Auðvitað þurfti að koma öllu til skila með einföldum hætti – og á mettíma.
Útkoman var Simply Travel: Einfaldlega sveigjanlegt. Út frá þessum grunni gátum við komið breyttum bókunarskilmálum til skila og hversu auðvelt væri að nýta ferðainneignir, breyta bókunum eða fresta ferðalaginu.
Við hönnuðum myndmerki sem nýta mætti á allt auglýsingaefni Icelandair, hvort sem það tilheyrði herferðinni sjálfri eða ekki. Við þróuðum afgerandi myndheim og framleiddum kvikmyndað efni í samstarfi við leikstjórann Hauk Björgvinsson hjá Skot. Við tókum ljósmyndir við sama tilefni og framleiddum ógrynnin öll af samfélagsmiðlaauglýsingum, vefborðum, útvarpsauglýsingum og stiklum fyrir ólíka markaði hér heima og erlendis. Það fór enda ekki fram hjá mörgum að sveigjanleikinn væri núna innifalinn hjá Icelandair.
Bókanir hér heima og erlendis byrjuðu að taka við sér og því má telja líklegt að flugfarþegar hafi tekið auknum sveigjanleika fagnandi.