Þú velur meira en bara ferðalagið

Sum verkefni virðast borðleggjandi í upphafi en þegar betur er að gáð leynast í þeim dásamlegir möguleikar til frásagnar. Þjónustuherferð Icelandair er gott dæmi um slíkt. Verkefnið var að styrkja stöðu Icelandair á meðal þeirra sem fljúga frá Íslandi með því að setja áherslu á þjónustuna sem er innifalin í flugfarinu, á fjölda áfangastaða sem farþegar geta valið úr og á tíðni og tímasetningar brottfara.

Í hugmyndavinnunni fundum við fljótt að við fáum miklu meira en bara flugfarið þegar við fljúgum með Icelandair. Fyrir utan öryggi, þægindi og hentuga ferðatíma fáum við líka úrval af ævintýrum og endalausar minningar. Verkefnið hætti að vera borðleggjandi, hugmyndin stækkaði og mæðgurnar Kristín og Silla fæddust.

Kristín er ung og full af ævintýraþrá og ferðast um heiminn í leit að nýjum upplifunum. Hún endurspeglar hvernig Icelandair færir okkur heiminn með yfir 50 áfangastöðum beggja vegna hafsins. Mamma Kristínar, hún Silla, er þaulreynd heimskona sem kann listina að njóta á ferðalagi. Hún endurspeglar þá þjónustu sem Icelandair veitir og öll þau þægindi sem flugfélagið hefur að bjóða.

Mæðgurnar eiga það sameiginlegt að safna örlítið óvanalegum minjagripum, sem þær nota síðan til að skiptast á sögum og kveikja ferðaneistann hjá hvor annarri. Í gegnum söguna þeirra sjáum við okkar eigin ferðaminningar, þau tengsl sem við höfum skapað og ævintýrin sem bíða okkar. Við fáum hlýlega áminningu um að við veljum meira en bara ferðalagið þegar við veljum Icelandair.