Við tókum enn á ný þátt í skapandi samstarfi Icelandair og Stúdíó Fléttu. Samstarfið hófst árið 2024, þegar tekin var snúningur á eldri einkennisfatnaði Icelandair og úr urðu fagrar töskur, en enn stóð eftir gífurlegt magn af einkennisfatnaði sem Icelandair hefur heitið að koma í góðan endurvinnslufarveg.
Í ár litu hönnuðirnir hjá Fléttu, Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir, til gamalgróinnar endurnýtingaraðferðar, bútasaums. Þær sniðu niður fatnaðinn og saumuðu skrautpúða. Púðarnir eru fagrir, bera í sér áhugaverða sögu, lyfta einkennum einkennisfatnaðarins og bjóða okkur velkomin heim. Sýningin var kynnt á HönnunarMars og framsetning mótuð í anda verkefnisins. Við stilltum púðunum líkt og í bútasaumi í eina heild í risavöxnum flugvélaglugga. Öll grafík, allt frá merki til hreyfihönnunar til umhverfis byggði á vísunum í textíl.